Nýsveinahátíð IMFR fór fram á Icelandair hótel Natura 5. mars sl., sú fimmtánda í röðinni.
Hátíðin var hin glæsilegasta en að þessu sinni var 45 nýsveinum, úr fjölmörgum iðngreinum, veitt viðurkenning fyrir árangur þeirra í námi, ýmist með silfur- eða bronsverðlaunum.
Meisturum þeirra var einnig veitt viðurkenning fyrir þátt þeirra í náminu.
Að þessu sinni voru tvær hátíðar teknar saman þar sem Covid gerði félaginu ekki kleift að halda slíka árið 2021.
Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og ráðherra mennta- og barnamála, Ásmundur Einar Daðason heiðruðu hátíðina með nærveru sinni auk þess að flytja ávörp.
Saga Garðarsdóttir fór með gamanmál.
Hátíðinni var streymt, til að geta gert fleirum mögulegt að fylgjast með og er hægt er að nálgast streymið hér.
Því miður stríddi tæknin okkur í lokin og vantar því lokaorð varaformanns, sem stýrði athöfninni af mikilli röggsemi í fjarveru formanns, sem er með Covid.
Í fréttatíma RÚV var einnig umfjöllun um hátíðina (sjá hér).
Þar var m.a. rætt við Baldur Sæmundsson, varastjórnarmann IMFR en syni hans, Guðjóni Baldri Baldurssyni, var veitt viðurkenning auk móður, Ólafar Kristínar Guðjónsdóttur, sem var meistari hans.
Gaman er einnig að geta þess að einn nýsveinn var að fá viðurkenningu í annað sinn í öðru fagi.
Dagskrá hátíðarinnar er hér. Þar má m.a. sjá nöfn nema, meistara þeirra og skóla.
Styrktaraðilar hátíðarinnar að þessu sinni voru m.a.: Icelandair hotels, MS, Bananar ehf, Ölgerðin ES, Grænn markaður, Nói & Síríus.
Hér má sjá myndir sem Jón Svavarsson o.fl. tóku við þetta tækifæri.
Stjórn, varastjórn og viðburðarnefnd þakka öllum þeim sem komu að eða styrktu hátíðina.
HÞH